Fagurferðir er menningarmengi sem stendur fyrir listrænum upplifunum, námskeiðahaldi, vinnusmiðjum og hátíðum undir formerkjum lista, náttúru og heimspeki. Fagurferðir er andlegt ferðafélag sem þróar, skipuleggur og býður upp á performatífar upplifanir sem eru í senn “fagurferðilegar”, hugvekandi og þerapískar.

Fagurferðir sérhæfir sig í innri og ytri ferðalögum sem styrkja tengsl ferðalangans við umhverfi sitt og sjálfan sig, efla fagurferði og stuðla þannig að aukinni tilvistarlegri sjálfbærni. Unnið er með tengsl, slökun og opnun með aðferðum sem byggja á visku og sköpunarhæfni líkamans.

Meðlimir Fagurferða eru Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, umhverfisheimspekingur og dósent við Listaháskóla Íslands, Hrefna Lind Lárusdóttir, jógakennari, sviðshöfundur og starfandi fagstjóri meistaranáms í sviðslistum við Listaháskóla Íslands, og Steinunn H. Knúts Önnudóttir, sviðshöfundur og listrannsakandi.

Rannsóknir Guðbjargar hafa einkum beinst að landslagi og fagurferðilegu gildi þess, og þeim tengslum og líkamlegu þekkingu sem skapast í gegnum fagurferðilega upplifun. Hún hefur unnið að rannsóknum á fagurferðilegu gildi ólíkra svæða og landslagsgerða, bæði á vegum faghóps 1 innan rammaáætlunar, sem og í þverfaglega tilraunaverkefninu Landslag og þátttaka sem var unnið í Kjósarhreppi árið 2016 af teymi sem auk Guðbjargar samanstóð af myndlistarmanni, hönnuði, fornleifafræðingi, landfræðingi og mannfræðingi. Guðbjörg hefur einnig unnið að rannsóknarverkefnum um líkamlega gagnrýna hugsun og tekið þátt í ýmsum listrænum verkefnum. Hún hefur skrifað fjölda greina og bókarkafla og gaf árið 2020 út bókina Vá! Ritgerðir um fagurfræði náttúrunnar.

Hrefna Lind lauk meistaranámi í sviðslistum í LHÍ, og meistaranámi í samtíma sviðslistum í Bandaríkjunum, þar sem hún komst í tæri við íhugunarkennslufræði. Hún hefur unnið að margskonar sviðslista verkefnum síðastliðin ár sem höfundur, performer, dramatúrg og listrænn stjórnandi. Allt frá The Post Performance Blues Band, sem hefur komið fram víða um Evrópu, Krakkaveldið, þátttökuverk þar sem fullorðnu fólki er boðið inn í heim þar sem krakkar ráða öllu, verkefnið Codapent, listrannsókn um lyfleysu innan skapandi rýmis sem sýnt var á Hönnunarmars, Listahátíð í Reykjavík, í Ásmundasal og á Hamraborg Festival og verið í forsvari fyrir Mannyrkjustöðina, starfsemi sem aðstoðar borgarbúa að tengjast sinni innri plöntu. Verkefni Hrefnu snúast oft um að skapa óvænta upplifun fyrir áhorfandann/þátttakandann þar sem möguleiki er á nýjum tengslum og viðhorfum. Sem listrænn stjórnandi hefur hún einnig komið á laggirnar listavinnustofum í fangelsum og alþjóðlegri vinnustofu á Eyrarbakka.

Steinunn vinnur með sjálfbærar aðferðir sviðslista, performatíf stefnumót og þátttökuverk þar sem gestum er boðin þátttaka í upplifun sem byggir á tengslum þeirra við umhverfi sitt, gildi og eigin farangur. Steinunn á langan feril að baki í sviðslistum. Hún hefur starfað sem leikstjóri, leikskáld, dramatúrg og leikari á Íslandi, Bretlandi, Bandaríkjunum, Skandinavíu og víðar. Steinunn var leiklistarráðunautur í Borgarleikhúsinu í Reykjavík og kennari og deildarforseti við sviðslistadeild LHÍ, listrænn stjórnandi vefleikhússins Herbergi 408 og Áhugaleikhúss Atvinnumanna og hefur gefið út bækur um listrænar aðferðir sínar. Hún er þriggja barna móðir, leirlistarkona, guðfræðingur og stundar skógarböð. Steinunn er með doktorsgráðu í leiklist frá Leiklistarakademíunni í Malmö en í doktors verkefni hennar Hversu lítið er nóg? vann hún með sjálfbærar aðferðir sviðslista og umbreytingarmátt þátttökuverka.