FALLEGT – SVIÐSLISTAVERKEFNI UM SJÁLFBÆRNI OG TENGSL
Fallegt er yfirskrift tveggja sviðslistaverkefna sem kanna sjálfbærni og tengsl mannsins við umhverfi sitt. Verkin, LEIÐIN og ÞÚ OG ÉG, eru staðsértæk farandverk sem verða unnin samhliða í samstarfi við nokkur byggðalög á Íslandi árið 2025.
LEIÐIN er performatíf pílagrímsganga sem rannsakar ferðalagið sem form og leið til umbreytingar.
ÞÚ OG ÉG eru sviðsett stefnumót við hið meira-en-mennska – plöntur, dýr, náttúruleg fyrirbæri og manngerða hluti – sem leitast við að dýpka skilning okkar á tengslum handan mannheimsins.
Bæði verkefnin byggja á þátttöku og upplifun, þar sem sviðslistir eru notaðar til að virkja vitund og dýpka samband manns og umhverfis.
Í heimi þar sem loftslagsbreytingar og samfélagslegur klofningur grafa undan framtíðinni, skiptir hlutverk sviðslista máli. Þótt lausnir á vandamálum samtímans krefjist róttækra kerfisbreytinga, geta listir vakið fólk til vitundar og styrkt tengsl þess við heiminn – hvort sem það er í samskiptum við annað fólk eða við náttúruna sjálfa.
Til að skapa breytingar þarf ekki aðeins að greina vandann, heldur að finna ástæðu til að bregðast við. Sú ástæða er kærleikur og tengsl: kærleikur til afkomenda okkar, sem munu erfa jörðina, og kærleikur til hins meira-en-mannlega – fjalla, lækja, fugla og blóma. Við gerum allt fyrir ástina, og orðið „fallegt“ er töfraorð sem umbreytir vonleysi í virkni.
Tengslarof, einangrun og bergmálshellar veikja getu mannsins til að standa saman og bregðast við. Þar hafa sviðslistir afgerandi hlutverk – þær skapa rými fyrir nýja sýn, styrkja samstöðu og virkja persónuleg gildi. Umbreytandi list snertir sjálfsmynd okkar og vekur tilfinningar sem leiða til aðgerða. Til að stuðla að breytingum þarf fólk að vita fyrir hvað það stendur – og virkja kærleiksvöðvann.
Fallegt er list sem styrkir tengsl – list sem kveikir neista til aðgerða.