LEIÐIN – PERFORMATÍFAR PÍLAGRÍMSGÖNGUR

Leiðin er sviðslistaverk sem býður gestum í pílagrímsgöngu þar sem tengsl við umhverfi og samfélag eru í forgrunni. Hver ganga er staðsértæk og byggir á sögum, landslagi og gildum viðkomandi svæðis. Leiðin skapar rými fyrir íhugun og upplifun, þar sem náttúran, manngerð rými og manneskjan sjálf verða hluti af performatífu samtali.

Við gerum allt fyrir ástina

Á tímum hamfarahlýnunar og vaxandi tengslaleysis, þar sem ótti við framtíðina eykst, geta sviðslistir skapað rými til að styrkja tengsl, efla umhyggju og stuðla að tilvistarlegri sjálfbærni.

Verkið byggir á þeirri hugmynd að það sem best hvetur manninn til að breyta lífsháttum og neysluvenjum spretti af kærleika – kærleika til afkomenda sem munu erfa jörðina og kærleika til hins meira-en-mannska: fjalla, lækja, fugla og blóma.

Leiðin vinnur með pílagrímsgöngu sem aðferð til að styrkja tengsl – við jörðina, samfélagið og okkur sjálf en pílagrímsgangan er bæði ferðalag út á við og inn á við.

Hægt er að upplifa Leiðina á tvo vegu:

  • Hópganga með leiðsögn – skipulögð ganga þar sem hópur fer leiðina saman.
  • Ganga á eigin vegum – gestir nálgast leiðbeiningar á tilgreindum stað og upplifa verkið á eigin forsendum, einir eða með öðrum.

Göngurnar eru opnar öllum og hentar öllum aldurshópum.

Leiðin er hluti af Fallegt, sviðslistaverkefni sem fjallar um sjálfbærni og tengsl.